Bjarni blindi

Þess munu fá dæmi, að blindir menn séu skyggnir, en þó litur svo út eftir sögu þeirri, sem hér segir, að svo geti að borið. Eftir að Bjarni blindi, sem áður er getið, var orðinn að mestu laus við draugsaðsóknina, varð honum miklu skaprórra en áður; en þó lagðist mótlæti á hann, að hann varð blindur og ekki laus við sturlun, og þótti það enn nokkrar menjar hinnar fyrri aðsóknir. Þegar svo var komið fyrir Bjarna, að hann gekk ekki lengur í vist, fór hann um manna á milli og var leiddur á milli bæja. Einu sinni sem oftar kom hann að Helgastöðum í Þingeyjarsýslu til séra Hannesar, föður Dr. Schevings, og fékk að vera þar um tíma. Þetta var um vetur. Meðan Bjarni dvaldi á Helgastöðum, bar svo við eitt sinn, að þeir Hallgrímur og Lárus, prestssynirnir, voru að leika sér að því frammi í bæjardyrum með tveim öðrum drengjum að fela sig hvor fyrir öðrum; höfðu þeir skála, sem var frammi í bænum, til að fela sig í, og var þar nærri koldimmt, en skálinn auður að mestu með stoðum, bitum, sperrum, langböndum og birki-árefti, en undir bitana var mjög hátt. Þó myrkt væri í skálanum, höfðu þeir þá varúð þó við, að þeir bundu fyrir augun á þeim, sem átti að leita, og héldu honum tveir frammi í bæjardyrum á meðan einn þeirra var að fela sig, og mátti hann fela sig þar í skálanum, sem hann vildi, hvort heldur á gólfinu eða uppi á bitunum eða, ef hann gat hangið í áreftinu; en ekki þurfti sá, sem leitaði, að þreifa á þeim, sem hann leitaði að, til að finna hann, því nægja þótti, ef hann gat sagt til, hvar hann var. Bjarna bar nú þar að, sem drengirnir voru að feluleik, og komst að því, hvaða leik þeir léku. Hann bauðst þá til að leita að hverjum þeirra, sem þeir vildu þar til kjósa að fela sig fyrir honum í skálanum og finna hann. Drengirnir kusu svo Hallgrím til þess; því þeir vissu, að hann var léttastur á sér og gat farið upp um alla bita og hangið í áreftinu, hvar sem vera vildi. Meðan Hallgrímur var að fela sig, héldu hinir Bjarna og höfðu alla sömu aðferð við hann sem þeir höfðu haft áður. Síðan fer Bjarni og leitar. En þegar hann kemur inn á skálagólfið þar niður undan, sem Hallgrímur hékk uppi yfir í rjáfrinu, kallaði Bjarni upp og sagði, að Hallgrímur væri þar, þó hann næði ekki til hans. Drengjunum þótti Bjarna takast furðu vel leitin og reyndu sama leik annað sinn, og hélt Hallgrímur nú niðri í sér andanum eða andaði svo lágt sem hann gat, því hinum var ekki grunlaust um, að Bjarni hefði í fyrra sinnið heyrt, hvar hann var, á andardrættinum. En allt fór á sömu leið; Bjarni nam þar staðar á skálagólfinu, sem Hallgrímur hékk uppi yfir. Þótti þá drengjunum til reynt, að ekki yrði falizt fyrir Bjarna, og spurðu hann þá að hvernig á því stæði, að hann væri svo naskur að finna Hallgrím, hvar sem hann fælist. En hann sagði þeim, að hvítabjarnahúnn hefði staðið þar á gólfinu niður undan, sem Hallgrímur hefði verið uppi yfir, og væri það fylgjan hans. En Dr. Scheving heldur enn, að svo hafi farið fyrir Bjarna sem mörgum öðrum, að þegar þeim förlast eitt skilningarvitið, skerpist aftur hin fyrir þann muninn, og að Bjarni muni því hafa heyrt til sín, hversu hægt sem hann hafði um sig.

Mynd eftir Anna Sofia Wahlström

Bjarni blindi endurskrifuð

Það er sjaldgæft að fólk sem er blint sé einnig skyggn og þó eru til undantekningar eins og kemur fram í þessari sögu. Það var eitt sinn maður sem kallaðist Bjarni blindi. Hann hafði orðið fyrir aðsókn drauga en var að mestu laus við drauginn og með því var hann einnig rólegri í skapinu en áður. Þó hafði hann orðið blindur af viðureign sinni við drauginn og stundum átti hann til að missa vitið. Þegar Bjarni var orðin svo gamall að hann gat ekki haldið áfram að vinna þá var hann leiddur á milli bæja og fólkið skiptist á að hugsa um hann.  Það var eitt skiptið sem hann kom til séra Hannesar, sem er faðir Dr. Schevings, á Helgastöðum í Þingeyjarsýslu og bjó hjá honum um veturinn. Meðan Bjarni dvaldi á Helgastöðum, þá kom hann eitt sinn að prestssonunum, Hallgrími og Lárusi, í feluleik með tveimur öðrum strákum frammi í bæjardyrunum. Feluleikurinn var á þá leið að þeir földu sig í skála sem var framarlega í bænum. Inni í skálanum var koldimmt og var hann að mestu auður fyrir utan stoðir, sperrur og bita sem voru hátt uppi rjáfrinu. Þó myrkt væri í skálanum þá bundu þeir fyrir augun á þeim sem átti að leita og héldu tveir í hann á meðan einn þeirra var að fela sig. Það mátti fela sig hvar sem var í skálanum, á gólfinu, uppi á bitunum eða hanga á áreftinu ef maður gat það, en sá sem var að leita þurfti ekki að þreifa á þeim sem hann leitaði að heldur var nóg að segja til hvar hann væri. Bjarni blindi kom nú að drengjunum þar sem þeir voru í feluleik og bauðst til að leita að þeim sem þeir myndu kjósa til að fela sig. Drengirnir kusu Hallgrím til að fela sig af því þeir vissu að hann var léttastur af þeim, hann gat farið upp um alla bita og hangið í áreftinu. Meðan Hallgrímur var að fela sig, héldu hinir Bjarna blinda og voru með sömu aðferðir og áður. Bjarni blindi fór svo að leita, þegar hann kom inn á skálagólfið þar sem Hallgrímur hékk upp yfir i rjáfrinu, kallaði Bjarni blindi upp og sagði að Hallgrímur væri þar, þó hann næði ekki til hans. Drengjunum fannst að Bjarni blindi hefði fundið Hallgrím of auðveldlega og ákváðu að reyna aftur. Í seinna skiptið hélt Hallgrímur niðri í sér andanum eða andaði eins lágt og hann gat, því drengina grunaði að Bjarni blindi hefði heyrt í andardrættinum hans. En allt fór eins og áður, Bjarni blindi nam þar staðar á skálagólfinu sem Hallgrímur hékk upp yfir. Þótti þá drengjunum þetta ekki vera tilviljun og spurðu hann af hverju hann væri svona naskur í að finna Hallgrím. Bjarni blindi sagði þeim þá að hvítabjarnarhúnn hefði staðið á gólfinu þar sem að Hallgrímur hefði verið að fela sig í rjáfrinu og væri það fylgjan hans.En Dr. Scheving heldur enn að þegar Bjarni blindi varð blindur þá hafi skerpst á hinum skilningarvitunum. Bjarni blindi hafi því heyrt hvar hann væri að fela sig þó að hann hafi haldið niðri í sér andanum.

Orðaspjall

Heimspekilegar samræður

Kveikjur út frá skynjun, sköpun og útinám

%d bloggers like this: