Læsi

Læsi er einn af grunnþáttum menntunar í Aðalnámskrá leikskóla, þar kemur fram að læsi er hæfni barna til að læra á umhverfið sitt og tjá upplifun sína á fjölbreyttan hátt (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011). Hægt er að skipta læsi niður í hina hefðbundnu merkingu um að læra að lesa og skrifa og svo er talað um læsi í víðum skilningi (Stefán Jökulsson, 2012). Læsi í víðum skilningi á við um allar þær fjölbreyttu leiðir sem börn nota til að skapa merkingu úr umhverfinu og nýta það í daglegu amstri.

Læsi í víðum skilningi passar vel við hugmyndir Loris Malaguzzi sem er stofnandi Reggio Emilia kennslufræðinnar. Samkvæmt Malaguzzi þá hafa börn hundrað tungumál eða tjáningarform (Forman, G. og Fyfe, B., 2012). Þessi tungumál eru leið barnsins til að tjá hugmyndir, tilfinningar, upplifanir og spurningar um umhverfi þeirra og samanstanda tjáningarforminn meðal annars af dansi, söng, listsköpun og snertingu.

Læsi í víðum skilningi nær líka yfir upplýsingatækni, miðlalæsi, þar sem börnin þurfa að skapa sér merkingu um hvað tæknin er og getað notað hana í daglegu starfi (Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, 2016). Tæknin býður börnunum upp á annað sjónarhorn af heiminum og það er auðveldara að finna hluti sem vekja áhuga. Fyrir utan það er líka hægt að efla læsi barna með tækninni þar sem ýmis forrit eru í boði sem leggja áherslu á stafina, hvað þeir heita, hvernig þau hljóma og í hvaða orðum stafirnir birtast (Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir, 2005).

Heimildaskrá:
Forman, G., og Fyfe, B. (2012). Negotiated Learning through Design, Documentation and Discourse. Í C. Edwards, L. Gandini, & G. Forman, The Hundred Languages of Children – The Reggio Emilia Experience in Transformation (bls. 247-271). Santa Barbara: Praeger. 

Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir. (2005). Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, 2004. 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2011). Aðalnámskrá leikskóla 2011. Sótt af https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/forsidumyndir/lokadrog-leiksk_vefur.pdf 

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir. (2016). Creative and playful learning with Biophilia in preschool, after-school classes and primary schools in Iceland. Í Í. Pereira, A. Ramos, og J. Marsh, The Digital Literacy and Multimodal Practices of Young Children: Engaging with Emergent Research. Proceedings of the first Training School of COST Action IS1410 (bls. 90-102). Braga: Centro de Investigação (CIEd). Sótt af http://digilitey.eu 

Stefán Jökulsson. (2012). Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum. Ísland: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Námsgagnastofnun.  

%d bloggers like this: