Loppa og Jón loppufóstri

Á Bleiksmýrardal, afrétt Fnjóskdælinga, er skál sú í fjalli þar vestan megin ár sem Loppuskál heitir. Það er í sögum haft, að skál þessi tekið hafi nafn af flagðkonu einni, sem í fyrnd hefði búið þar í helli nokkrum, og að flagðkona þessi hafi eitt sinn stolið manni einum, sem Jón hét, ungur maður líklegur til þroska; hafi hann verið við fjallagrasatínslu á dalnum með fleira fólki. Loppa hafði Jón heim í helli sinn og var þar systir hennar fyrir og ekki fleira trölla. Systurnar voru báðar í blóma aldurs síns, en sökum þess að þá var kristni fyrir löngu komin í land og tröll á förum, hugðu þær efna Jón þennan til fylgjulags við sig, svo þær gætu aukið kyn sitt. Lögðu þær því alla alúð á að fara sem bezt með hann og láta ekkert skorta er eflt gæti þroska hans. Iðulega tóku þær og mökuðu í eins konar smyrslum eða feiti og teygðu hann á milli sín; fannst honum það mikil raun. Þær orguðu líka í eyra honum til að trylla hann. Aldrei létu þær hann einan í hellinum og ekki fór nema önnur í senn til aðdráttanna. Liðu þannig nokkur misseri, að Jón fékk ekki að sól að sjá og aldrei færi til burtfarar sem hann hafði stöðugt löngun til, þó hann dyldi þær þess.

Þá hér er komið sögunni, hvarf systir Loppu, svo Jón vissi ekki hvað af henni varð; fór hún eitthvað til búsaðdrátta og kom aldrei síðan. Ætlaði hann að hún mundi á einhvern hátt látizt hafa. Varð Loppu mjög angursamt við missi systur sinnar, því hún trúði ekki vel fóstra sínum. Hlaut hún nú að starfa allt ein og láta Jón einan. Var hún þó aldrei svo langdvölum burtu að Jón sæi sér strokfæri; gjörir hann sér þá upp veiki og lézt þungt haldinn. Þótti Loppu það hið mesta mein og bað han segja sér, við hvað honum mundi batna, og kveður hann á líkast mundi að sjúknaði sínum gjörðist, fengi hann tólf ára gamlan hákarl. Loppa hét að vera þar um í útvegum og býr hún sig til ferða, fer og kemur brátt aftur að forvitnast um, hvort fóstri hennar lægi kyrr og var það; ætlaði hún, að þá mundi allt svikalaust og fer leið sína.

Litlu síðar rís Jón úr rekkju, fer út úr hellinum og niður til árinnar.Hittir hann stóðhross á dalnum og tekur eitt og ríður niður dalinn og þraut það brátt, því svo var Jón þungur orðinn að hann var óbær hverjum hesti. Fer hann svo alla leið niður til Illugastaða; hafði hann þá sligað þrjá hesta og þó mátt ganga hið mesta af leiðinni.

Þá er hann kemur sunnan á túnið á Illugastöðum, heyrir hann að Loppa fóstra hans kallar upp á Miðdegishólnum og segir:

„Hérna er tólf ára gamli hákarlinn, Jón, og þrettán ára þó; ég sótti hann á Siglunes“.

Jón var yfirkominn af mæði og hraðar þó nú ferðinni enn meir að kirkjunni, brýtur hurðina með hnefa sínum og biður að klukkum sé hringt; fólk var í kirkju og þó því yrði ósvipt við, var klukkum hringt, og var Loppa þá komin að læk þeim, sem skammt er fyrir sunnan kirkjuna og á túninu. En sem hún heyrði klukknahljóðið, hvarf hún aftur; heitir þar síðan Tröllkonuvöllur. Um Jón er það að segja, að svo var vöxtur hans mikill og afskaplegur orðinn að höfuð hans tók mæni kirkjunnar, þá er hann stóð uppréttur í henni. Hann náði prestsfundi, lifði síðan þrjá daga og deyði. Ætluðu menn að mæðin af hlaupunum hefði hann til dauða dregið.

Loppa og Jón loppufóstri endurskrifað

Á Bleiksmýrardal, afrétt Fnjóskdælinga, er skál sú í fjalli þar vestan megin ár sem Loppuskál heitir. Það er sagt að skál þessi hafi fengið nafn sitt af flagðkonu einni, að nafni Loppa, sem bjó í helli einum rétt hjá með systur sinni. Þær voru báðar í blóma aldurs síns en heldur einmana því að tröll voru á förum eftir að kristni kom til landsins og voru þær einar af fáum tröllum eftir. Loppa á að hafa stolið ungum táningspilt, Jóni að nafni, þegar hann var við fjallagrasatínslu á dalnum með fleira fólki. Loppa tók Jón heim í hellinn sinn til systur sinnar af því að þær vildu eignast fleiri vini. Lögðu þær því alla alúð á að fara sem best með hann og láta hann ekkert skorta sem eflt gæti þroska hans. Reglulega mökuðu þær Jón eins konar smyrslum eða feiti og teygðu hann á milli sín. Þær orguðu líka í eyrað á honum til að trylla hann og fannst honum það ekkert gaman. Aldrei skildu þær hann einan eftir í hellinum og fór aðeins önnur þeirra í senn til aðdráttanna. Liðu þannig nokkur misseri, að Jón fékk ekki að sjá sólina og aldrei fékk hann færi til burtfarar. Þó að Jóni langaði stöðugt að fara frá flagðkonunum þá dyldi hann því fyrir þeim.

Þegar hér er komið við sögu þá hvarf systir Loppu, hún fór að útrétta og kom aldrei aftur. Ályktaði Jón að hún hljóti að hafa látist. Varð Loppu mjög angursamt við að missa systur sína því þá var hún ein eftir til að sjá um fóstra sinn hann Jón. Þó að Jón hafi haldið því leyndu að hann vildi fara þá treysti Loppa honum ekki og áleit að hann myndi strjúka við fyrsta tækifæri. Var hún því aldrei nógu lengi í burtu svo að Jón sæi sér strokfæri, þóttist hann þá vera veikur og þungt haldinn. Þótti Loppu það vera hið mesta mein og bað hann að segja sér hvað hún ætti að gera til þess að honum myndi batna. Segir þá Jón að honum finnst líklegt að hann verði betri ef hann fengi tólf ára gamlan hákarl. Loppa hét honum því að útvega hákarl og býr hún sig til ferða. Kemur hún þó fljótlega aftur til að athuga hvort að Jón lægi ekki ennþá kyrr. Þegar hún var búin að sannfæra sig um að allt myndi svikalaust vera þá fer hún leið sína.

Fljótlega eftir að Loppa fór í annað sinn rís Jón úr rekkju, fer út úr hellinum og niður til árinnar. Sér hann þar stóðhross á dalnum, fer hann á bak eins af hrossunum og ríður niður dalinn. Hestinn þraut brátt því Jón var orðinn svo stór og þungur að hann var óbær hverjum hesti. Loks kemst Jón að Illugastöðum en þá hafði hann sligað þrjá hesta og þurft að ganga meirihlutann sjálfur.

Þegar hann kemur sunnan á túnið á Illugastöðum heyrir hann að Loppa fóstra hans kallar upp á Miðdegishólnum og segir: Hérna er tólf ára gamli hákarlinn, Jón, og þrettán ára þó; ég sótti hann á Siglunes. Jón var yfirkominn af mæði en flýtir sér þó enn meir og stefndi í átt að kirkjunni. Þegar hann kemur að kirkjunni brýtur hann upp hurðina með hnefunum og biður að klukkunum sé hringt. Fólkið var í kirkjumessu og þó þeim var brugðið. Þá hringdu þau klukkunum. Þegar klukkunum var hringt þá var Loppa komin að læk einum sem var á túninu fyrir sunnan kirkjuna. Þegar hún heyrir klukknahljóðið hörfar hún tilbaka og hverfur svo, síðan þá hefur túnið heitið Tröllkonuvöllur.

Um Jón er það helst að segja að hann var orðinn svo rosalega stór og afskaplegur að höfuð hans náði alla leið upp að mæni kirkjunnar þegar hann stóð uppréttur. Hann jafnaði sig aldrei almennilega eftir að hafa verið fangi og lifði ekki lengi eftir flóttann, en á meðan hann lifði gat hann lyft þyngstu byrðum og var mikil hjálp fyrir bændur.

Orðaspjall

Heimspekilegar samræður

Kveikjur út frá skynjun, sköpun og útinám

%d bloggers like this: