Dalakúturinn

Einu sinni voru margir menn á ferð. Þeir tjölduðu á sunnudagsmorgun á fögrum velli grænum. Veður var bjart og fagurt. Þeir lögðust að sofa og lágu í röð í tjaldinu. Sá er fremstur lá við dyrnar, gat ei sofnað og horfði hann um tjaldið. Sá hann þá bláleita gufu vera yfir þeim er innstur lá. Gufa þessi leið fram tjaldið og út. Maðurinn vildi vita hvað þetta gæti verið og fór á eftir henni. Hún leið yfir völlinn hægt og hægt og kom loks að þar sem gamall og skininn hrosshaus lá. Það voru margar maðkaflugur og þaut mjög í vængjum þeirra. Gufan leið nú inn í hrosshausinn. Að góðum tíma liðnum kom hún út aftur. Leið hún þá enn eftir vellinum, þangað til hún kom að dálítilli lækjarsprænu, sem rann um völlinn. Hún fór þá niður með læknum og var eins og hún vildi fara yfir um lækinn. Maðurinn hélt á svipunni sinni og leggur hann hana á lækinn; því hann var ekki breiðari en svo að skaftið náði á milli bakkanna. Fór þá gufan út á svipuskaftið og leið á því yfir lækinn. Nú leið hún áfram um hríð og kom loks að þúfu einni á vellinum. Þar hvarf hún ofan í þúfuna. Maðurinn stóð skammt frá og beið þess, að gufan kæmi aftur. Hún kom og bráðum. Leið hún þá hinn sama veg til baka og hún var komin. Maðurinn lagði svipuna sína á lækinn og þar fór gufan á eins og áður. Fór hún nú beint heim að tjaldinu og nam ei staðar fyrr en hún var komin yfir hinn innsta mann í tjaldinu. Þar hvarf hún. Lagðist þá maðurinn niður og sofnaði.

áliðnum degi risu ferðamenn upp og tóku hesta sína. Töluðu þeir þá margt, á meðan þeir voru að leggja upp. Meðal annars segir sá er innstur hafði legið í tjaldinu:

                „Ég vildi ég ætti það sem mig dreymdi um í dag.“

                „Hvað var það og hvað dreymdi þig?“ segir sá er gufuna hafði séð.

Hinn segir: „Ég þóttist ganga hérna út um völlinn. Kom ég þá að húsi einu miklu og fallegu. Þar var fjöldi manna saman kominn og sungu menn þar og spiluðu með kæti mikilli og gleði. Ég var lengi nokkuð inni í húsi þessu, en þegar ég fór út, gekk ég enn lengi um slétta völlu og fagra. Kom ég þá að á einni mikilli. Ég leitaðist lengi við að komast yfir hana, en gat ekki. Þá sá ég hvar kom ógurlega stór risi. Hann hafði tré geysimikið í hendinni og lagði hana yfir ána. Fór ég þá yfir ána á trénu og gekk enn lengi. Kom ég þá að haugi einum miklum. Haugurinn var opinn og gekk ég inn í hann. Þar fann ég ekkert annað en tunnu eina stóra fulla með peninga. Þar var ég lengi og var ég að skoða peningana, því slíka hrúgu hafði ég aldrei fyrr séð. Síðan fór ég út og gekk hinn sama veg og áður fór ég. Kom ég þá að ánni og þá kom líka risinn með tréð og lagði á ána. Ég fór yfir um eins og áður á trénu og heim hingað í tjaldið.“

Maðurinn, sem elt hafði gufuna, fór nú að verða kátur með sjálfum sér og segir:

                „Komdu, lagsmaður, við skulum sækja snöggvast peningana.“Maðurinn fór að hlæja og hugsaði, að hann væri ekki með öllum mjalla, en fór þó. Ganga þeir nú sama veg og gufan hafði farið. Koma þeir þá að þúfunni og grófu hana upp. Þar fundu þeir kút fullan af peningum. Fóru þeir síðan heim aftur að tjaldinu til lagsmanna sinna og sögðu þeim upp alla sögu um drauminn og gufuna.

Orðaspjall

Heimspekilegar samræður

Kveikjur út frá skynjun, sköpun og útinám

%d bloggers like this: