Talið er að börn læri mest af samskiptum við aðra, bæði börn og fullorðna (Inga Lovísa Andreassen og Auður Pálsdóttir, 2014; Stefán Jökulsson, 2012). Með því að vera í samskiptum við hvort annað og vinna saman að sameiginlegu markmiði er verið að byggja grunn að lýðræðissamfélagi (Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir, 2012). Í lýðræðislegu samfélagi leggja allir sitt af mörkum til að móta það samfélag sem þau vilja tilheyra. Í lýðræðis- og mannréttindaheftinu kemur fram að John Dewey taldi að lýðræði væri lífsmáti þar sem vinsamleg samvinna væri aðalatriðið, alveg sama hversu ólík viðhorf, þarfir og markmið aðrir eru með. Það þýðir að þó að ágreiningur sé til staðar þá er alltaf hægt að læra af hvort öðru.
Lýðræði á ekki bara við um hópinn sem heild heldur fær einstaklingurinn að leggja sitt af mörkum og upplifa sig sem hluta af samfélaginu þar sem hann fær líka tækifæri til að vinna að eigin markmiðum (Inga Lovísa Andreassen og Auður Pálsdóttir, 2014).
Þegar verið er að tala um tölvunotkun barna þá kemur fram að margir telja að samskipti barnanna séu engin og að börn einangrist við tölvunotkun (Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir, 2005). Þó kemur fram að samskipti séu mikil og að samvinna barnanna sé meiri þegar þau eru í tölvunni í leikskólum með jafnöldrum sínum. Þegar börn vinna saman þá stjórnar til dæmis einn músinni á skjánum og hinir koma með ábendingar eða tillögur um hvað er hægt að gera. Síðan er skipst á svo allir komast að. Nýleg rannsókn þar sem samskipti og tal barna í skapandi vinnu við iPad voru skoðuð sýndi að tækin styðja við samvinnu nemenda þegar þau eru notuð í hópum (Fallon og Khoo, 2014). Algengara er að börn undir sex ára upplifi upplýsingatækni í einrúmi, með eldri systkinum eða fullorðnum þegar þau eru heimafyrir (Nói Kristinsson, 2015).
Heimildaskrá:
Fallon, G. og Khoo, E. (2014). Exploring young students’ talk in iPad-supported collaborative learning environments. Computer & Education, 77, 13-28. DOI: https://doi.org/10.1016/j.compedu.2014.04.008
Inga Lovísa Andreassen, og Auður Pálsdóttir. (2014). Útikennsla og útinám í grunnskólum. Reykjavík: Mál og menning.
Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir. (2005). Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, 2004.
Nói Kristinsson. (2015). Áhrif upplýsingatækni á veruheim barna: fyrirbærafræðileg rannsókn með 5-9 ára börnum. (meistaraprófsritgerð), Háskóli Íslands. Reykjavík. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/20696
Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir. (2012). Lýðræði og mannréttindi. Ísland: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Námsgagnastofnun.
Stefán Jökulsson. (2012). Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum. Ísland: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Námsgagnastofnun.