Námsefnið samanstendur af þjóðsögum og skiptist í fimm kafla, sem eru: Þjóðsagan eins og hún er skrifuð í nýlegri útgáfu Jóns Árnasonar sem var gefin út árið 2003, Þjóðsagan endurskrifuð á einfaldari máta (ef það á við), Orðaspjall, Heimspekilegar samræður og Kveikjur út frá læsistengdri skynjun sem samanstanda af skynjun, sköpun og útinámi. Með hverri þjóðsögu fylgir vatnslitamáling sem er máluð af Önnu Sofiu Wahlström.
Þjóðsögurnar eru valdar með tilliti til fimm þátta. Þær þurftu að hæfa börnum semsagt innihalda sem minnst ofbeldi, mannát og nauðgunum. Þær þurftu að innihalda einhvern boðskap. Ég þurfti að geta séð fyrir mér hvernig ég get unnið með þær út frá læsistengdri skynjun. Ég reyndi að velja sögur sem eru ekki eins vel þekktar og Búkolla og Gilitrutt. Að lokum reyndi ég að velja sögur sem komu frá mismunandi landshlutum.
Allar þjóðsögurnar eru skrifaðar upp eins og þær koma fyrir í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Ef málfarið í þjóðsögunni var illskiljanlegt þá er hún einnig endurskrifuð á einfaldari máta. Það er gert til að hægara sé að átta sig á samhengi í textanum. Hugmyndin var að kennarinn myndi byrja á að lesa einfaldari útgáfunni og færði sig svo yfir í upprunalegu útgáfuna þegar börnin hefðu fengið meiri skilning á sögunni. Það reyndist þó best að segja söguna í stað þess að lesa hana. Þá er hægt að styðjast við feitletruðu orðin sem tilheyra orðaspjallinu sem ramma fyrir frásögnina.
Í báðum útgáfunum af þjóðsögunum eru orð úr millilagi orðaforðans sem hentar eldri leikskólabörnum (Árdís Hrönn Jónsdóttir, 2013) feitletruð og skýringar á orðunum birtar í orðaspjallskaflanum. Einnig voru valin orð sem tilheyra ekki endilega millilaginu en eru mikilvæg til að skilja söguna. Orð sem tilheyra millilaginu eru óalgengari í talmáli en er gagnlegt fyrir börnin að þekkja. Í orðaspjallskaflanum kemur einnig fram tafla þar sem orðið kemur fram eins og það birtist í textanum og svo samheiti og andheiti orðsins. Stuðst var við íslenska orðabók og heimasíður sem tilheyra stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til að finna skýringar, samheiti og andheiti. Heimasíðurnar hétu Íslenskt orðanet og Íslensk nútímamálsorðabók. Það kom fyrir að ekkert að ofantöldu dugði en þá var stuðst við útskýringar úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og til að finna skýringar á jóðmæli var stuðst við grein eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur (2005). Þetta er ekki tæmandi listi og hægt að bæta við hann úr textanum ef kennari vill það. Þar að auki er hægt að bæta inn nýjum orðum en það fer eftir hvernig sagan er sögð og hvaða áherslur kennarinn hefur við frásögnina.
Einnig eru setningar sem hægt er að nýta í heimspekilegar samræður skáletraðar í báðum útgáfunum. Í kaflanum um heimspekilegar samræður koma setningarnar fyrir og undir hverri setningu eru hugmyndir að opnum spurningum. Spurningarnar eiga að snúast um opin hugtök sem koma fram í textanum og fá börnin til að hugsa gagnrýnið um innihald þess (Fisher, 2014). Spurningarnar eru bæði til þess að börnin nái betur að átta sig á innihaldi sögunnar en einnig er reynt að hafa eitt opið hugtak fyrir hverja setningu sem er valin. Eins og með orðaspjallið er þetta ekki tæmandi listi og ætti að fara eftir barnahópnum hvað og hvernig er spurt. Börnin eiga fá tækifæri til að leiða samræðurnar og ræða um það sem greip athygli þeirra í sögunni (Fisher, 2014). Þær spurningar sem ég hef tekið saman eru ætlaðar sem stuðningur fyrir kennarann til að virkja barnahópinn og gefa dæmi um hvernig hægt er að spyrja.
Að lokum er hugmyndabanki tengdur læsistengdri skynjun þar sem hægt er að fá hugmyndir um eða kveikjur að hvernig hægt sé að vinna með þjóðsögurnar út frá skynjun, sköpun og útinámi. Fyrir hverja sögu koma fram tvær til þrjár kveikjur. Kveikjurnar eru ekki endilega fyrir eina kennslustund heldur skiptir máli að kennarinn sé vakandi fyrir því sem gerist yfir daginn og hvað börnin eru að fást við (Anna Backman, 2018; Anna Sofia Wahlström o.fl., 2022). Það skiptir máli að kennarinn grípi þau tækifæri sem gefast til að nefna söguna sem er verið að vinna með og gera tilraunir eða verkefni sem eru viðeigandi í hvert sinn. Enn og aftur fer það eftir kennaranum hvernig hann kýs að nýta sér kveikjurnar í vinnu með börnunum.
Mér finnst gott að vera búin að lesa söguna og leggja hana nokkurn veginn á minnið áður en ég held stundina. Þá er ég búin að velja eitt til tvö orð úr orðaspjallinu fyrir hverja lestrarstund sem ég staldra stutt við þegar kemur að þeim í sögunni og fer svo nánar í merkingu og eiginleika orðsins eftir frásögnina. Ég reyni að gera frásögnina eins lifandi og ég get og nota þá efnivið sem er við höndina og er aðgengilegur börnunum eftir á. Við frásögnina veiti ég börnunum færi á að taka þátt í að segja frá. Því betur sem börnin þekkja söguna því líklegri eru þau til að grípa boltann. Eftir frásögnina þá vel ég eitt af þrennu ef það er tími til. Fyrsta er að teikna mynd byggða á sögunni og segja hvert öðru frá myndinni sem við teiknuðum. Annað er að skoða vatnslitamyndina sem Anna Sofia málaði og velta fyrir okkur innihaldi sögunar meðal annars með því að nota heimspekilegar samræður. Þriðja er að fara í leiki út frá sögunni.
Læsistengd skynjun byggist á því að rannsaka og gera tilraunir með efnivið sem tengist sögunni, kvæðinu eða bókinni sem er verið að vinna með þar sem skynreiða er höfð að leiðarljósi (Anna Sofia Wahlström o.fl., 2022). Í hópastarfi eða flæðistundum þá vel ég eitt viðfangsefni eða þema úr sögunni. Fyrir stundina vel ég svæði sem hentar verkefninu og tek fram efnivið sem ég held að börnin myndu vilja nota, þannig að auðvelt er að grípa í hann ef áhugi er fyrir honum. Ég byrja á að segja stuttlega frá sögunni eða part úr sögunni eftir hvað viðfangsefnið er og leyfi svo börnunum að gera tilraunir og rannsaka efniviðinn áður en þau ákveða hvað þau vilja gera. Best er að reyna finna efnivið sem getur virkjað sem flest skynfæri og vekja athygli á eiginleika efniviðsins t.d. hvernig er áferðin á steininum? Hvernig lykt er af steininum? Hvernig litur hann út? Svo er hægt að bera efniviðinn eða steininn við annan efnivið eins og svamp eða húðina. Hver er munurinn og hvað er sameiginlegt?
Það fer eftir eðli efniviðsins og stundarinnar hvort aðeins eru gerðar tilraunir eða hvort byrjað er á að skapa og svo gert tilraunir. Til að mynda getur maður byrjað á að búa til trommu sem maður svo gerir tilraunir með. Hvað heyrist ef við setjum vatn á trommuna? Þar að auki eru öll tækifæri gripin sem myndast í daglegu starfi til að tengja söguna við daglegt líf og áhuga barnanna fylgt eftir til að gera tilraunir, svo þau öðlist reynslu af söguþræðinum.
Efnisyfirlitið sýnir sögurnar í stafrófsröð. Hægt er að smella á heiti sögunnar til þess að fara á viðeigandi síðu. Efnisyfirlitið er ætlað til þess að hægt sé að finna sögurnar fljótt og örugglega. Búið er að fá leyfi til að birta myndir og myndbönd þar sem sést í börnin bæði hjá börnunum og foreldrum þeirra.
Heimildaskrá:
Anna Backman. (2018). Del 4: Naturvetenskap i boksamtal. Skolverket – Lärportalen. https://larportalen.skolverket.se/#/modul/2-natur/F%C3%B6rskola/031-natur-teknik-o-sprakutveckling/del_04/
Anna Sofia Wahlström, Hildur Vilhelmsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir. (2022). Skynreiða að leiðarljósi í námi barna. Skólaþræðir – Tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2022/03/04/skynreida-ad-leidarljosi-i-nami-barna/?fbclid=IwAR1ooJ8ULkqdGNHRFIzRXfsUW8vImIxK0BYkPgTwZcxaeDJKwF_1JshUkCo
Árdís Hrönn Jónsdóttir. (2013). Orðaspjall: að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Leikskólinn Tjarnarsel.
Fisher, R. (2014). Teaching children to think (Önnur útgáfa). Oxford: Oxford University Press.
Guðrún Ása Grímsdóttir. (2005). Jóðmæli. Í Kristján Eiríksson og Þórður Helgason (ritstj.), Són: Tímarit um óðfræði 3. Hefti (bls. 31-57). Tímarit.is. https://timarit.is/page/6482742#page/n29/mode/2up Jón Árnason. (2003). Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Bókaútgáfan Þjóðsaga.