Á Vestfjörðum var bóndi einn; hann var kvongaður og bjó vel. Hann átti einhvern óvildamann, sem hafði hatur á honum. Sagt er, að þessi óvildarmaður bónda hafi verið göldróttur og hafi ætlað að nota galdra sína við bónda og drepa hann með brögðum.
Einn dag syfjar bónda mjög og segir við konu sína, að hann haldi einhver sæki að sér og ætli hann að snara sér einhvers staðar.
Hún segir, að hann geti lagt sig í rúmið fyrir ofan sig, svo geti hún setið framan á hjá honum.
Bóndi gjörir þetta og sofnar vært.
Á meðan bóndi sefur, kemur þar dálítill drenghnokki og kona spyr hann um erindi. Hann kvaðst vera komin til að drepa manninn hennar. Hún segir að hann, svo lítill angi, geti það ekki. Hann segist geta teygt úr sér, ef hann vilji. Hún segir, að ekki líti hann út til þess að geta það og segir sig langi til að sjá það. Drengurinn fór að teygja úr sér og konan var að smánarra hann til að gjöra sig stærri og stærri. Seinast varð hann svo stór að hann stóð hálfboginn í bænum og með höfuðið uppi í rjáfri.
Nú þykir konu hann orðinn nógu stór og spyr hann, hvort hann geti ekki gert sig litinn líka. Hann segist hafa einhver ráð með það. Konan biður hann að sýna sér. Hann smáminnkar sig þá, þangað til hann er orðinn aftur eins og hann var þegar hann kom. Kona spyr, hvort hann geti gjört sig minni en þetta og gjörir hann sig þá talsvert minni en hann var. Kona segir, að hann geti víst gjört sig svo lítinn að hann komist ofan um stútinn á glasinu. Það segist hann geta. Hún segir hann skuli láta sjá og gjöra það. Hann fer ofan í glasið, en hún þrífur þá tappa, setur hann í og bindur líknabelg yfir, og nú komst drenghnokkinn ekki upp úr glasinu, því líknabelgurinn var yfir. Kona leggur frá sér glasið með drengnum í.
Skömmu síðar vaknar bóndi og spyr konu sína, hvort enginn hafi komið.
Hún segir, að komið hafi strákhnokki dálítill, sem hafi sagt, að hann ætti að drepa hann, og fær honum glasið og segir hann sé þarna. Bóndinn tekur við og segir um leið, að hann hafi vitað, að hann ætti góða konum, en ekki vitað eða ímyndað sér, að hann ætti svo góða sem hann sæi hún væri. Síðan gjörir hann útaf við púkann í glasinu, og eftir það varð hann eða kona hans ekki vör við neinar sendingar svo góðar sem púkinn var.
