Hafgýgur

Það var einu sinni í fyrndinni konungur og drottning. Þau áttu eina dóttur barna. Þegar hún fæddist, mæltu nornir fyrir henni jóðmælivana forntíðarinnar. Gáfu þær henni marga hamingju: fagran vöxt og fríðleika, auðsæld og gott gjaforð; reiddist þá ein nornin og þótti mikið um mælt, en lítið skotið til sinna ummæla; skóp henni því, að hún skyldi verða að sjóskrímsli níunda hverja nótt, þegar hún giftist og aldrei úr þeim álögum komast, nema hún gæti búið svo saman við mann sinn í þrjú ár að hann og enginn annar yrði þessa vís eður og svo spakan, að þó upp kæmist hið sanna um hamskipti hennar, skyldi hann hvorki opinbera það, reiðast því né týna ást sinni við hana. En ef öðruvísi færi, skyldi hún steypast í sjóinn og aldrei úr þeim ánauðum komast; en söngrödd skyldi hún hafa svo fagra að allar skepnur sæfði.

Mær þessi ólst upp í ríki föður síns með fegurð og sóma, ástsæl af alþýðu manna. En er hún kom til aldurs, var hún gift ágætum konungssyni. Fór svo fram í tvö ár að hún hvarf úr hvílu hans til óskapanna níunda hverja nótt, en á þriðja ári varð hann þessa var að hún hvarf úr hvílu hans; fór því að hafa nákvæmari gætur á henni. Eina nótt veitti hann henni eftirför. Hélt hún á undan til sjávar og að einum helli. En er hann kom að hellinum, sér hann hvar hún er að synda í vatni í hellinum, maður niður að mitti, en fiskur að neðan. Sneri hann síðan heim í rekkju sína. Að stundu liðinni kemur hún aftur og ætlar í hvílu til bónda síns. Skipar hann henni þá, „illum ormi“, að fara í burtu. Sneri hún þá í burt aftur með gráti miklum. En er hún hvarf, var hún þunguð og ól börn sín í sjó, og þaðan eru allar margýgjur komnar.

Hafgýgur endurskrifað

Það var einu sinni í fyrndinni konungur og drottning í ríki sínu sem áttu eina dóttur. Þegar hún fæddist þá fóru nornir með jóðmæli fyrir hana að vana forntíðarinnar. Gáfu þær henni marga hamingju: fagran vöxt og fríðleika, auðsæld og gott gjaforð. Reiddist þá ein nornin því henni þótti stúlkan fá of mikið í gjöf og lagði því á hana álög til að jafna það út. Þegar stúlkan giftist þá mundi hún breytast í sjóskrímsli níundu hverja nótt. Aðeins er hægt að létta álögunum ef enginn verður þess vís í þrjú ár eftir brúðkaupið. Ef upp kæmist um hamskipti hennar þá mætti eiginmaður hennar ekki gera það opinbert, reiðast henni né týna ást sinni við hana. Annars myndi hún steypast í sjóinn sem sjóskrímsli og aldrei úr þeim ánauðum komast. Hinsvegar þá myndi hún vera með svo fagra söngrödd að hún gæti svæft allar skepnur.

Mær þessi ólst upp í ríki föður síns með fegurð og sóma. Þótti öllum vænt um hana og var vinsæl hjá alþýðunni. Þegar hún var orðin nógu gömul giftist hún ágætum konungssyni. Bjuggu þau saman í tvö ár og á hverri níundu nótt hvarf hún úr hvílu hans. Á þriðja ári tók konungssonur loks eftir því að hún væri reglulega að hverfa og ákvað að veita henni eftirför. Hélt hún til sjávar að helli einum eins og svo oft áður. Konungssonur elti en þegar hann kom að hellinum sér hann hvar hún er að synda í vatni í hellinum. Var hún þá maður niður að mitti en fyrir neðan var hún með sporð eins og fiskur. Sneri hann þá heim í rekkju sína. Þegar prinsessan kemur aftur og ætlar að leggjast í rekkju hjá bónda sínum þá bregst hann illa við. Hann skipar henni, illum ormi, að fara burt og koma aldrei aftur. Fór hún þá aftur að hellinum og grét sáran því nú myndi hún vera hafgýga upp frá þessu. Þegar hún breyttist í hafgýgu í síðasta sinn þá var hún þunguð og fæddi börnin sín í sjónum. Frá henni eru allar margýgjur komnar og eiga þær það til að syngja fyrir unga sjómenn.

Orðaspjall

Heimspekilegar samræður

Kveikjur út frá skynjun, sköpun og útinám

%d bloggers like this: