Upplýsingatækni með börnum

Upplýsingatækni hefur þróast gríðarlega á undanförnum árum og aukin áhersla er á að skólastofnanir nýti sér tæknina í kennslu (Stefán Jökulsson, 2012; mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011).  Tæknin er orðin hluti af samfélaginu, hún hefur til dæmis auðveldað okkur að afla upplýsinga, við eigum auðveldara með að hafa samskipti og við erum fljótari að ferðast á milli staða.

Samkvæmt könnun sem Nói Kristinsson (2015) sendi á foreldra árið 2014 um aðgengi barna að tækni þá höfðu rúmlega 98,8% af börnum á aldrinum 3ja til 15 ára með aðgengi að einhverskonar tækni eins og borðtölvu, fartölvu, snjallsíma eða spjaldtölvu. Ólíklegt er að aðgengi barna hafi minnkað síðan þá, því með tilkomu snertiskjás eru börnin fljótari að tileinka sér tæknina (McPake, Plowman og Stephen, 2013; Mourlam, Strouse, Newland og Lin, 2019). Með tækni sem býðst börnum er ekki bara átt við snertiskjái heldur getur það verið allt frá tölvum yfir í tæknileg leikföng, eins og dúkku sem getur talað. Þar að auki eru komin alls konar smáforrit í iPad og Android stýrikerfinu sem eru ætluð börnum til fræðslu og afþreyingar. Börnin alast upp með tækninni og álíta hana sem hluta af hversdagslífi þeirra (Nói Kristinsson, 2015). Aðkoma barna að tækninni er misjöfn og því kunna börnin mismikið á hana og upplifa tæknina á ólíkan hátt. Í rannsókn um miðlanotkun barna frá 0-8 ára eftir Steingerði Ólafsdóttur (2017) kemur fram að börn deila oft snjalltækjum með öðrum fjölskyldumeðlimum en það er ekki fyrr en um fimm ára aldur sem líkurnar verða meiri á að þau eignist sín eigin snjalltæki. Niðurstöður rannsóknarinnar voru meðal annars að vinsælast var að börnin horfi á þátt eða mynd og að foreldrum fannst þeir bera mesta ábyrgð á miðlanotkun barna sinna og að viðvera foreldra við miðlanotkun barnanna minnkar eftir því sem börnin verða eldri.

Mælt er með að börn yngri en tveggja ára verji sem minnstum tíma fyrir framan skjáinn og að börn fimm ára og undir hafi takmarkaðan tíma á hverjum degi (Mourlam og fleiri, 2019). Þar að auki er mælt með að foreldrar séu með börnunum þegar þau eru í tækjunum til að þau eigi auðveldara með að tengja reynslu sína af tækniheiminum við raunveruleikann og að velja vandað efni. Það hefur sýnt sig að allt frá unga aldri geta börn notað tæknina á skapandi hátt ef þau fá tækifæri til þess og sú reynsla nýtist þeim áfram í áframhaldandi námi (McPake, Plowman og Stephen, 2013).

Þar sem tæknin hefur orðið fjölbreyttari, aðgengilegri, nær yfir víðari vettvang og tækin þola meira álag við högg þá hefur orðið einfaldara að nýta sér hana í daglegu starfi í leikskólanum (Lagergren og Holmberg, 2019). Með tækninni er meðal annars hægt að taka myndir, myndbönd og hljóðupptökur, ýmis forrit bjóða upp á að spila og búa til tónlist, teikna, hlusta á hljóðbækur og margt fleira sem gæti komið í staðinn fyrir það sem notað hefur verið áður í kennslu. Það þýðir þó ekki að tæknin eigi að taka yfir alla kennslu heldur er mikilvægt að nýta tæknina í bland við hefðbundinn efnivið. Með þessu móti er verið að gefa börnunum enn eitt tungumálið sem þau geta bæði notað til að tjá sig á mismunandi hátt og líka til að læra, rannsaka og auka þekkingu á umhverfið sínu. Hugmyndir barna þróast af því að vera í samskiptum við önnur börn og því er tilvalið að láta þau vinna samvinnuverkefni.

Það er hægara sagt en gert að velja vandað efni þar sem ekki er búið að rannsaka almennilega gæðin á öllum þeim forritum sem ætluð eru til menntunar fyrir börn (Kucirkova, Messer, Sheehy og Panaderi, 2013). Kucirkova o.fl. (2013) komust að þeirri niðurstöðu að forrit sem eru auðveld í notkun og hafa fjölbreyttar leiðir til að ná ákveðnum markmiðum eru líklegri til þess að hafa jákvæð áhrif á menntun barn, til að mynda er markmiðið með flestum teikniforritum að teikna en ekki endilega hvernig teikningin kemur út. Það kom einnig í ljós að börnin völdu tæknina fram yfir hefðbundna kennslu og því er um að gera að virkja þennan áhuga barnanna með því að nýta tæknina meira í kennslu. Með hefðbundinni kennslu er átt við að notast er við hefðbundinn efnivið eins og pappír og blýant.

 Hins vegar ef börnin upplifa tiltekna tækninotkun sem verkefni með engan tilgang þá er ólíklegra að þau sækist í hana. Það þarf að passa að leyfa börnunum að nálgast tæknina á eigin forsendum. Þannig geti þau öðlast skilning og nýtt sér tæknina í einhverju samhengi við umhverfi sitt (Nói Kristinsson, 2015).

Heimildaskrá:
Kucirkova, N., Messer, D., Sheehy, K. og Panadero, C.F. (2013). Children’s engagement with educational iPAd apps: Insights from a Spanish classroom. Computers & Education, 71, 175-184. DOI: https://doi.org/10.1016/j.compedu.2013.10.003 

Lagergren , A., og Holmberg, K. (2019). Barn och förskollärare i digitala aktiviteter. Í K. Holmberg, A. Lagergren, Torfi Hjartarson, og E. Bøen, Lek och lärande med digitala verktyg i nordiska förskolor – Erfarenheter från två Nordplus-projekt 2015-2019 (bls. 15-34). Kaupmannahöfn: Nordplus. 

McPake, J., Plowman, L. og Stephen, C. (2013). Pre-school children creating and communicating with digital technologies in the home. British journal og Educational Technology. 44(3), 421-431. DOI: https://doi.org/10.1111/j.1467-8535.2012.01323.x 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2011). Aðalnámskrá leikskóla 2011. Sótt af https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/forsidumyndir/lokadrog-leiksk_vefur.pdf 

Mourlam, D.J., Strouse, G.A., Newland, L.A., og Lin, H. (2019). Can they do it? A comparison of teacher candidates’ beliefs and preschoolers’ actual skills with digital technology and media. Computers & Education, 129, 82-91. DOI:10.1016/j.compedu.2018.10.016 

Nói Kristinsson. (2015). Áhrif upplýsingatækni á veruheim barna: fyrirbærafræðileg rannsókn með 5-9 ára börnum. (meistaraprófsritgerð), Háskóli Íslands. Reykjavík. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/20696

Stefán Jökulsson. (2012). Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Námsgagnastofnun. 

Steingerður Ólafsdóttir. (2017). Smábörnin með snjalltækin. Aðgangur barnanna og viðhorf foreldra. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2017 – Menntakvika 2017. Sótt af http://netla.hi.is/serrit/2017/menntakvika_2017/001.pdf

%d bloggers like this: